Erlent

Ekkert Hilton fyrir Paris

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Hótelkeðjuerfinginn Paris Hilton gæti þurft að temja sér nýjan lífsstíl, í það minnsta í þá 45 daga sem hún mun dvelja í Century héraðsfangelsinu, litlu kvennafangelsi nálægt Lynwood í Los Angeles sýslu.

Paris mun eyða lunganum úr sumrinu í tæplega ellefu fermetra klefa í Century fangelsinu. Ólíkt öðrum föngum hefur hún klefann þó út af fyrir sig, en af öryggisástæðum þykir ekki hættandi á að vista fræga fólkið með ótíndum glæpamönnum.

Klefinn er innréttaður með klósetti, vaski og spegli úr pússuðum málmi. Tuttugu sentímetra breiður gluggi sér fyrir útsýninu.

Í fangelsinu er boðið upp á þrjár saltlitlar máltíðir á dag, nauta- og svínakjötslausar, þar sem kjöt af þeim skepnum er bannað í fangelsinu.

Dómari gaf henni þó ekki möguleika á því að velja sér fangelsi til að afplána í, líkt og algengt er með þekkt fólk. Þá greiða menn fyrir fæði og húsnæði, og versla sér þar með aðeins meira næði en fæst í almenningsfangelsum.

Þannig greiddi leikkonan Zsa Zsa Gabor um 5400 krónur á nóttu fyrir vistina í El Segundo fangelsinu í Los Angeles, en þar dvaldi hún í þrjá daga fyrir að slá lögreglumann utanundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×