Íslenski boltinn

HK: Nýliðarnir númeri of litlir

Mynd/AntonBrink

Fréttablaðið byrjar í dag að telja niður að Íslandsmótinu í knattspyrnu því næstu ellefu daga munum við birta spá íþróttamanna Fréttablaðsins um lokastöðu liðanna í Landsbankadeild karla 2007. Það spáir nýliðum HK 10. sætinu og að Kópavogsliðið falli því úr deildinni í haust.

HK er komið upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins og þangað eru HK-ingar komnir eftir að hafa verið í 3. deild fyrir aðeins sex árum. HK-liðið er þekkt fyrir leikgleði, sterka liðsheild og mikla baráttu og fór félagið upp í Landsbankadeildina án þess að vera borið uppi af einhverjum stjörnuleikmönnum.

Gunnar Guðmundsson kom HK upp á sínu þriðja ári og á það sameiginlegt með nánast öllum leikmönnum liðsins að búa yfir lítilli reynslu úr efstu deild.

HK-ingar eru hugrakkir því þeir hafa ekki styrkt liðið mikið fyrir þetta tímabil. Þeir hafa aukið breiddina en ekki fengið til sín leikmenn sem hafa sannað sig á stóra sviðinu. HK-menn ætla áfram að treysta á liðheildina og byggja á sínum strákum líkt og áður.

Það er mikill efniviður í Fagralundi og þetta sumar verður ómetanlegt fyrir reynslubankann en það er fátt sem bendir til þess að jafn reynslulítið lið eigi möguleika á að stíga skrefið upp í hóp bestu liða landsins.

HK-liðið verður örugglega sýnd veiði en ekki gefin líkt og hefur sést í bikarkeppninni síðustu sumur en það er erfitt að sjá hvernig liðið ætli að halda sér í deildinni á ekki sterkari og reyndari mannskap. Það er samt öruggt að Gunnleifur Gunnleifsson og félagar eiga eftir að setja sinn svip á deildina.

> Lykilmaðurinn

Gunnleifur Gunnleifsson hefur verið hjartað og sálin í HK-liðinu undanfarin ár og sýnt félaginu mikinn trúnað þrátt fyrir augljósan áhuga annarra Landsbankadeildarliða á honum. Gunnleifur hefur verið maðurinn á bak við það að liðið hefur aðeins fengið á sig 39 mörk í 36 leikjum undanfarin tvö tímabil og það verður örugglega nóg að gera hjá honum í sumar.

> X-faktorinn

Kolbeinn Sigþórsson er framtíðarstjarna íslenska fótboltans og frammistaða hans með 17 ára landsliðinu hefur vakið mikla athygli á þessum efnilega framherja. Kolbeinn hefur lýst yfir áhuga á að spila með HK en það er líklegt að hann semji við erlent lið og verði ekkert með HK í sumar.

Okkar einkunn:

Þjálfari 5

Markvarsla 8

Vörn 4

Miðja 4

Sókn 5

Breidd 1

Liðsstyrkur 2

Heimavöllur 6

Áhorfendur 7

Hefð/Reynsla

Gengi síðustu ára:

2006 2. sæti (B-deild)

2005 7. sæti (B)

2004 3. sæti (B)

2003 8. sæti (B)

2002 1. sæti (C)

2001 1. sæti (D)

Gengi á vormótunum

3 sigrar

3 jafntefli

3 töp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×