Erlent

Ópíum gæti orðið stór útflutningsvara Íraka

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Forsíða Independent í dag.
Forsíða Independent í dag.

Bændur í suðurhluta Írak eru farnir að rækta ópíum í stað hrísgrjóna. Þetta hefur vakið ótta um að landið gæti orðið stór útflytjandi heróíns, líkt og gerðist í Afghanistan. Breska dagblaðið Independent segir að hrísgrjónabændur við borgina Diwaniya, suður af Bagdad, hafi snúið sér frá hrísgrjónarækt og rækti nú ópíum.

Þróunin sé enn á byrjunarstigi í landinu, en ríkisstjórnin geti lítið gert til þess að sporna við ræktuninni þar sem herskáir Síja múslimar ráði yfir Diwaniya. Blóðug átök hafa átt sér stað á svæðinu milli þeirra, lögreglu, íraska hersins og bandarískra hermanna síðustu tvo mánuði.

Svæðið suður og vestur af borginni er þekkt fyrir hrísgrjónarækt. Blaðið segir ræktunina erfiðleikum bundna vegna mikilla hita og raka. Þá sé of hættulegt fyrir erlenda fréttamenn að heimsækja svæðið. Heimildarmenn blaðsins í Basra, sem kunnugir eru eiturlyfjaviðskiptum í Írak, staðfesta þróunina.

Eiturlyfjasmyglarar hafa um árabil notað Írak sem viðkomustað fyrir eiturlyf á leið til ríkra markaða í Saudi Arabíu og við Persaflóa. Öryggissveitir Saddam Husseins í Basra voru taldir taka þátt í þessu ólöglega athæfi.

Ólíklegt þykir að bændurnir hafi tekið ákvörðunina skyndilega og er talið að gengi fjármagni framleiðsluna. Þau séu vel skipulögð og búin góðum bílakosti og vopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×