Enski boltinn

Mourinho: Þetta er ekki búið enn

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, neitar alfarið að gefast upp í titilbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni þó hans menn séu nú fimm stigum á eftir toppliði Manchester United eftir leiki dagsins. Chelsea náði aðeins jafntefli við Bolton á heimavelli í dag á meðan United vann dramatískan sigur á Everton á útivelli.

"Þetta er ekki búið enn því við eigum enn stærðfræðilega möguleika á að vinna titilinn. Maður verður alltaf að halda í trúna á meðan möguleikarnir eru fyrir hendi. Við erum næstum búnir að tapa baráttunni - næstum því. United þarf að tapa tveimur leikjum og við að vinna þrjá. Þeir eru komnir ansi nálægt titlinum," sagði Mourinho. Chelsea á þar að auki erfiða leiki eftir á leiktíðinni - útileik við Arsenal, heimaleik við Manchester United og heimaleik við Everton.

"Við erum daprir eftir þennan leik í dag, en við eigum risaleik á þriðjudaginn og höfum sem betur fer engan tíma til að velta okkur upp úr þessu," sagði Mourinho, sem verður án tveggja sterkra lykilmanna í síðari leiknum við Liverpool í Meistaradeildinni. Ricardo Carvalho haltraði af leikvelli í dag meiddur á hné og þegar hefur verið staðfest að Michael Ballack geti heldur ekki spilað í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×