Enski boltinn

Eggert: Við verðum að byggja nýjan leikvang

NordicPhotos/GettyImages

Eggert Magnússon segir að West Ham verði að byggja nýjan knattspyrnuleikvang ef félagið ætli sér að verða rótgróinn klúbbur og eitt af sex stærstu félögunum á Englandi. Hann segir jafnframt að Alan Curbishley stjóri verði ekki látinn selja leikmenn þó liðið falli í 1. deilidina í vor.

"Við ætlum að tjalda öllu til að koma West Ham á kortið sem einu af sex stærstu félögum á Englandi og áætlun liggur fyrir um þá hluti sem við ætlum okkur að gera á viðskiptasviðinu. Við erum að skoða möguleika á því að flytja heimavöll liðsins til að geta stækkað stuðningsmannahópinn og boðið upp á fyrsta flokks aðstöðu," sagði Eggert en Ken Livingstone borgarstjóri í London sagðist nýverið hafa mikinn áhuga á að aðstoða West Ham við að tryggja bjarta framtíð félagsins.

West Ham er í bullandi fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni sem stendur, en Eggert ætlar ekki að gera stórar breytingar þó liðið falli í 1. deildina. "Við ætlum að standa við það sem við lofuðum Alan Curbishley á leikmannamarkaðnum og við munum ekki endilega þurfa að selja leikmenn þó liðið falli. Við erum ef til vill með of stóran hóp til að spila í fyrstu deild, en ég á ekki von á útsölu," sagði Eggert í samtali við ESPN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×