Enski boltinn

Miðaverð hækkar hjá Manchester United

Frá Old Trafford í Manchester
Frá Old Trafford í Manchester NordicPhotos/GettyImages

Stuðningsmenn Manchester United horfa fram á talsverða hækkun á miðaverði á næstu leiktíð, en fregnir herma að miðaverð muni hækka um allt að 14%. Hækkunin verður hvað mest á dýrustu sætunum í stúkunni, en ódýrustu miðarnir sem ætlaðir eru barnafólki verða lækkaðir í verði.

Mestu hækkanirnar verða á sætunum í lægri hluta norður- og suðurstúkunnar á vellinum þar sem miðaverð fer úr 665 pundum í 772 pund (85,000 krónum í 100,000 krónur). Miðaverð í dýrustu sætin á vellinum verða hækkuð um 12% og fara þannig upp í 107,000 krónur. Ódýrustu miðarnir á völlinn kosta um 1600 krónur og ellilífeyrisþegar greiða 3000 krónur.

Reiknað er með því að þessi ráðstöfun eigi eftir að vekja óánægju hjá stuðningsmönnum félagsins, en forráðamenn Manchester United geta þó falið sig á bak við þá staðreynd að mjög vel gengur að selja miða á leiki liðsins. Oftast er uppselt á leiki liðsins á heimavelli og þangað mæta yfir 75,000 áhorfendur. Lægsta tala áhorfenda hjá félaginu í vetur var rúmlega 61,000 áhorfendur sem mættu á bikarleik liðsins gegn Middlesbrough nýlega.

Talsmaður stuðningsmannasamtaka félagsins er afar óánægður með hækkað miðaverð og bendir á að mörg félög í úrvalsdeildinni hafi ákveðið að frysta - eða jafnvel lækka - miðaverð á næstu leiktíð. "Þetta er ekki sanngjarnt fyrir stuðningsmennina og það er alls ekki hægt að réttlæta þessar hækkanir," sagði talsmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×