Erlent

Staðfastur í friði, frelsi og framförum

„Hann hélt um stjórnartaumana á erfiðum tímum en sagan mun bera honum fagurt vitni því hann var hugrakkur og staðfastur í helstu áherslumálum sínum, friði, frelsi og framförum," sagði Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, í yfirlýsingu í dag í kjölfar fráfalls Borísar Jeltsíns, fyrrverandi forseta Rússalands.

Samband Clintons og Jeltsíns var sterkt þótt oft hafi kastast í kekki með þeim. Þeir funduðu að minnsta kosti 15 sinnum á tíunda áratug síðustu aldar og um aldamótin, á þeim tíma sem Sovétríkin liðuðust í sundur og lýðræði hóf innreið sína í Rússland. Síðast funduðu þeir árið 2000 þegar Clinton fór í sína síðustu ferð til Moskvu sem forseti Bandaríkjanna.

Þrátt fyrir að Clinton og Jeltsín hafi deilt um ýmislegt, eins og stækkun Atlantshafsbandalagsins til austurs, var oft stutt í hláturinn hjá þeim eins og fjölmargar myndir af sameiginlegum fréttafundum vitna um.

Sögðu aðstoðarmenn Clintons Jeltsín dyntóttan og að þeir hafi aldrei vitað hvort hann myndi mæta glaður til fundar eða öskuillur. Þá höfðu þeir áhyggjur af drykkju Jeltsíns en Clinton mun hafa sagt við einn samstarfsmanna sinna að betra væri að ræða við Jeltsín drukkinn en flesta aðra edrú.

„Við vorum ekki alltaf sammála en ég reyndi að styðja hann. Í hvert skipti sem við ræddumst við tók ég eftir tvennu, hversu trúr hann var landi sínu og þjóð og hvernig hann mat hlutina og tók erfiðar ákvarðanir sem hann taldið þjóna hagsmunum Rússlands til lengri tíma," sagði Clinton einnig í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×