Enski boltinn

Berbatov gagnrýnir varnarmenn Tottenham

Dimitar Berbatov er ekki ánægður með liðsfélaga sína.
Dimitar Berbatov er ekki ánægður með liðsfélaga sína. MYND/Getty

Búlgverjinn Dimitar Berbatov, sóknarmaður Tottenham, segir að varnarmenn liðsins þurfi heldur betur að hysja upp um sig brækurnar í síðustu leikjum tímabilsins ætli liðið sér að komast í Evrópukeppni á næsta ári. Berbatov segir varnarleik Tottenham gegn Arsenal á laugardag hafa verið hrikalegan.

Tottenham er í 7. sæti úrvalsdeildarinnar eins og er, en liðið fékk á sig tvö mörk gegn Arsenal. Auk þess áttu leikmenn Arsenal þrjú stangarskot og nokkur önnur dauðafæri, sem mörg hver komu eftir mistök í vörn Tottenham.

“Ef við höldum áfram að verjast á þennan hátt munum við ekki komast í Evrópukeppni á næsta ári. Við verðum að hugsa aðeins meira í leik okkar. Fótbolti er ekki svo erfiður leikur. Arsenal nýtti sér sofandahátt okkar og skoraði tvisvar,” segir Berbatov.

“Við gáfum þeim tvö heimskuleg mörk og við verðum að hætta að fá okkur svona mörk ef við ætlum að ná einhverjum árangri. Til að vaxa sem lið verðum við að spila betri vörn,” bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×