Enski boltinn

Zamora: Þetta ræðst í lokaumferðinni

Bobby Zamora.
Bobby Zamora. MYND/Getty

Framherji West Ham, Bobby Zamora, segir að sjálfstraustið í herbúðum liðsins sé í góðu lagi í augnablikinu og er hann vongóður um að Íslendingaliðið nái að halda sæti sínu í deildinni. Zamora segist sannfærður um að það ráðist ekki fyrr en í lokaumferðinni hvaða lið þurfi að bíta í það súra epli að falla niður í 1. deild.

"Ég tel okkur eiga góða möguleika en við þurfum að vinna þá þrjá leiki sem við eigum eftir. Það verður erfitt, en það eru fimm lið sem geta lent í þessum tveimur fallsætum sem eru eftir. Þetta ræðst ekki fyrr en á síðasta degi tímabilsins," segir Zamora.

West Ham mætir Wigan í vikunni í leik sem mun koma til með að ráða miklu um framhaldið, en Wigan er aðeins þremur stigum á undan West Ham í stigatöflunni. "Það verður rosalegur leikur en ef við spilum jafn vel og á móti Everton er ég viss um að við náum góðum úrslitum. Liðin í kringum okkur eiga mjög erfiða leiki eftir eins og við, þannig að við eigum góða möguleika," segir Zamora.

Enski sóknarmaðurinn hefur farið mikinn í síðustu leikjum West Ham þrátt fyrir að eiga við meiðsli að stríða í hné. Hann bítur hins vegar á jaxlinn og ætlar sér að klára þá leiki sem eftir eru. "Ég finn mikið fyrir þessu og fæ oftar krampa í fótinn. Ég er á bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum sem gera heldur ekki gott, en ég læt mig hafa þetta. Það er ekki svo mikið eftir," segir Zamora.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×