Enski boltinn

Cantona: Stuðningsmenn Man. Utd. eru einstakir

Eric Cantona er í guðatölu á meðal stuðningsmanna Man. Utd.
Eric Cantona er í guðatölu á meðal stuðningsmanna Man. Utd. MYND/Getty

Hinn franski Eric Cantona, lifandi goðsögn hjá Manchester United, segir að stuðningsmenn liðsins eigi stærstan þátt í frábærri frammistöðu Cristiano Ronaldo í vetur. Telur Cantona að Ronaldo geti þakkað þeim fyrir að hafa verið valinn besti leikmaður deildarinnar í gær.

Cantona segist ekki hafa búist við Ronaldo jafn sterkum í ár og raun hefur borið vitni, sérstaklega í ljósi uppákomunnar í leik Portúgals og Englands á HM síðasta sumar þar sem hann átti sinn þátt í að fá Wayne Rooney af vellinum.

“Það hefðu ekki allir stuðningsmenn á Englandi brugðist við á sama hátt og stuðningsmenn Man. Utd. gerðu. Þeirra stuðningur gagnvart Ronaldo er sá sami og ég fékk eftir að ég snéri úr keppnisbanninu langa,” sagði Cantona og átti þar við níu mánaða langa bannið sem hann fékk fyrir að sparka í áhorfanda á sínum tíma.

“Fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir leikmenn að finna þennan stuðning. Það er mikil sálfræði fólgin í stuðningi og það er mikilvægt að leikmenn finni fyrir honum. Það þýðir að manni er treyst og það gefur aukið sjálfstraust,” sagði Cantona og bætti við: “Á erfiðum stundum, eins og Ronaldo upplifði eftir HM í sumar, er þetta sérstaklega mikilvægt.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×