Enski boltinn

Mourinho: Áttum ekki skilið að vinna

Jose Mourinho er ekki ánægður með dómara í ensku úrvalsdeildinni.
Jose Mourinho er ekki ánægður með dómara í ensku úrvalsdeildinni. MYND/Getty

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, viðurkenndi eftir markalausa jafnteflið gegn Newcastle í dag að sínir menn hefðu ekki átt skilið að fara frá St. James´Park með þrjú stig í farteskinu. Mourinho var hins vegar mjög óánægður með dómara leiksins og sagði augljósri vítaspyrnu hafa verið sleppt.

"Ef þú spyrð mig hvort að Chelsea hafi átt skilið að vinna þennan leik, þá segi ég nei. Leikmenn Newcastle voru ferskari en við og hættulegri í skyndisóknunum. Þeir áttu skilið að fá annað stigið," sagði Mourinho.

Þrátt fyrir að vera ennþá þremur stigum á eftir Man. Utd. segist Jose Mourinho mjög sáttur með stöðu mála. Liðið á fjóra leiki eftir í deildinni og eru þrír þeirra á Stamford Bridge, m.a. leikurinn mikilvægi gegn Man. Utd.. "Síðustu vikur hefur markmið okkar fyrir þennan tímapunkt að eiga ennþá góða möguleika á titlinum. Sá möguleiki er til staðar. Ef einhver hefði boðið mér þessa stöðu fyrir 10 vikum síðan hefði ég þáð hana."

Mourinho lét hins vegar einnig í ljós óánægju sína með muninn á dómgæslu í leikjum Man. Utd. og Chelsea. Mourinho vildi meina að tveimur augljósum vítaspyrnum hefði verið sleppt í leiknum í dag og vísaði í samanburði til atviks sem átti sér stað í leik Man. Utd. og Middlesbrough í gær þegar John O´Shea felldi Lee Dong-Gook innan teigs, en ekkert var dæmt.

"Þetta virðist vera regla hjá dómurum; að dæma ekki vítaspyrnur á Man. Utd. og ekki leyfa Chelsea að fá vítaspyrnur. Þetta eru stórar ákvarðanir dómara, sem hafa áhrif á stig liðanna," sagði Mourinho þungur á brún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×