Enski boltinn

Wenger: Okkur líður eins og eftir tapleik

Arsene Wenger var vonsvikinn með úrslit leiksins gegn Tottenham í dag.
Arsene Wenger var vonsvikinn með úrslit leiksins gegn Tottenham í dag. MYND/Getty

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var gríðarlega vonsvikinn með að hafa misst unnin leik niður í jafntefli í viðureigninni gegn Tottenham í dag, en hrósaði leikmönnum sínum þó fyrir að sýna mikinn karakter. Wenger sagði við fréttamenn eftir leikinn að stemningin í búningsklefanum eftir leik hafi verið eins og eftir tapleik.

"Þetta hefðu átt að vera þrjú stig fyrir okkur. Við hefðum að vera búnir að skora fleiri mörk en svona getur farið ef þú nærð ekki að klára leikinn. Á svona stundum reyni ég að einblína á það jákvæða, og það voru sannarlega jákvæðir punktar í leik okkar í dag. Leikmenn sýndu mikinn karakter með því að skora tvö mörk eftir að hafa lent undir og mér fannst mikil samheldni á meðal leikmanna," sagði Wenger eftir leikinn.

"Svona hefur þetta verið hjá okkur í ár. Við spilum frábæran fótbolta og sköpum okkur fullt af tækifærum en svo fáum við á okkur klaufamörk á síðustu mínútunum. Stemningin eftir svona leik er eins og eftir tapleik."

Wenger er þegar farinn að hugsa til næsta tímabils og telur hann sig hafa frábæran leikmannahóp í höndunum, sem verður talsvert sterkari á næstu leiktíð þegar Thierry Henry og Robin van Persie verða komnir í sitt besta form.

"Hugarfarið og andinn í þessu liði er einstakur og alveg eins og við viljum hafa hann. Kjarninn í liðinu er þegar til staðar og hæfileikarnir sömuleiðis. Stundum er betra að vinna með það sem er þegar til staðar, frekar en að gera tilraunir við að bæta hópinn," sagði Wenger ennfremur og bætti því við að lokum að hann verði áfram hjá Arsenal, þrátt fyrir að hans helsti samstarfsaðili síðustu árin, David Dein, sé farinn frá félaginu.

"Ég verð áfram og ég hef gert leikmönnum grein fyrir því. Þetta verður mun erfiðara núna því ég og David störfuðum náið saman. Mitt starf verður nú helmingi erfiðara og tímafrekara þegar hann er farinn, en ég ætla ekki að hlaupa í burtu frá hálfkláruðu verki. Ég verð áfram," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×