Enski boltinn

Ekki öll nótt úti enn fyrir West Ham

Leikmenn West réðu ekki við sig og fögnuðu Bobby Zamora innilega, eftir að hann hafði skorað gegn Everton í dag, þrátt fyrir að Alan Curbishley hafi sagt sínum mönnum að halda fagnaðarlátunum í lágmarki.
Leikmenn West réðu ekki við sig og fögnuðu Bobby Zamora innilega, eftir að hann hafði skorað gegn Everton í dag, þrátt fyrir að Alan Curbishley hafi sagt sínum mönnum að halda fagnaðarlátunum í lágmarki. MYND/Getty

Eggert Magnússon og félagar í West Ham unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Everton í ensku úrvalsdeildinni í dag og er nú þremur stigum frá því að komast upp úr fallsæti deildarinnar. Á sama tíma gerðu helstu keppinautarnir, Charlton og Sheffield Utd., gerðu 1-1 jafntefli. Fjölmargir leikir fóru fram í Englandi í dag og er Watford fallið í 1. deild.

Það var Bobby Zamora sem skoraði eina mark leiksins strax á 13. mínútu leiksins í dag, en hann hefur verið sjóðheitur að undanförnu og skorað mörg mikilvæg mörk fyrir félagið.

Charlton missti af dýrmætu tækifæri til að komast upp fyrir Sheffield United og úr fallsæti með því að ná aðeins jafntefli við þessa erkifjendur sína á heimavelli í dag. Talal El Karkouri kom Charlton yfir en Jon Stead jafnaði metin fyrir Sheffield Utd. með marki sem gæti reynst gríðarlega þýðingarmikið þegar uppi er staðið.

West Ham er nú með 32 stig í 19. sæti, Charlton með 33 stig í 18. sæti og Sheffield Utd. er í því 17. með 35 stig. Wigan er með 35 stig og Fulham 36 og því alls ekki sloppin við fallið ennþá.

Wigan tapaði fyrir Liverpool á Anfield, 2-0, þar sem Dirk Kuyt skoraði bæði mörkin. Heiðar Helguson sat allan tímann á varamannabekk Fulham sem gerði 1-1 jafntefli við Blackburn.

Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku allan leikinn fyrir Reading sem vann Bolton á útivelli, 3-1. Kevin Doyle var hetja Reading með því að skora tvívegis á síðustu fimm mínútum leiksins og Stephen Hunt bætti við þriðja markinu þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma. Ótrúlegar lokamínútur á Reebook-vellinum í Bolton.

Þá gerðu Watford og Man. City 1-1 jafntefli og þar með er ljóst að Watford á ekki lengur tölfræðilega möguleika á að halda sæti sínu í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×