Enski boltinn

Gilberto vill fá Dein aftur til Arsenal

David Dein og Eggert Magnússon eru góðir félagar, eins og þessi mynd ber með sér.
David Dein og Eggert Magnússon eru góðir félagar, eins og þessi mynd ber með sér. MYND/Getty

Gilberto Silva, hinn brasilíski miðjumaður Arsenal, segir að leikmenn liðsins hafi fengið vægt sjokk þegar þeir heyrðu af brotthvarfi stjórnarmannsins David Dein frá félaginu í vikunni. Gilberto vill jafnframt að Arsenal geri allt til að fá Dein aftur til félagsins, svo stóran þátt hafi hann átt í velgengni liðsins síðustu ár.

"Arsene Wenger og David Dein eru það sem Arsenal stendur fyrir. Þegar þú hugsar um félagið þá eru þeir tveir það sem kemur fyrst upp í hugann. Það er mikil synd að hann skuli vera farinn," segir Gilberto.

Gilberto gerir sér þó grein fyrir möguleikanum á að Dein komi aftur inn í stjórn félagsins með því að sameinast bandaríska auðkýfingnum Stan Kroenke í því sem nefnt hefur verið sem "fjandsamleg yfirtaka". Gilberto segir að slík þróun yrði jafnvel ekki svo fjandsamlegt.

"Brotthvarf hans hefur sært alla. Dein elskaði Arsenal og hjarta hans slær ennþá hér. Hann var mikill persónuleiki og nálægð hans í búningsklefanum hafði mikil áhrif. Kannski kemur hann aftur fyrr en síðar," sagði Gilberto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×