Erlent

Fórnarlambanna minnst með þögn

MYND/AP

Algjör þögn ríkti á háskólasvæði Virginíu Tækniháskólans á hádegi í dag við upphaf minningarathafnar sem þar fór fram. Hundruð stúdenta af svæðinu og íbúar í kring, söfnuðust saman við skólann, til að minnast þeirra þrjátíu og tveggja sem létu lífið í skotárás í skólanum á mánudaginn.

Syrgjendurnir héldu á kertum en einnig mátti sjá skilti sem á stóð „ Við munum aldrei gleyma". Timothy Kaine, ríkisstjóri í Virginíu, tileinkaði daginn fórnarlömbunum og sagði sorg ríkja í fylkinu öllu. Á sama tíma sitja sérfræðingar sveittir yfir myndbandi árásarmannsins Cho Seung-hui og reyna að skilja hvers vegna hann framdi voðaverkin.

Fórnarlömbin komu víða að og minningarathafnir voru því haldnar á fleiri stöðum en á háskólasvæðinu í dag. Þingmenn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings minnstu einnig fórnarlambanna með mínútu þögn á hádegi í þingsal í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×