Erlent

Segir engan markað fyrir fríblöð í Danmörku

Eftir átta mánuði hefur verið hætt útgáfu danska fríblaðsins Datos. Eitt af stóru dönsku útgáfufélögunum segir engan markað fyrir slík blöð í Danmörku.

Í danska fríblaðastríðinu hefur því lengi verið spáð að Dato myndi fyrst heltast úr lestinni. Steen Breiner, fyrrverandi ritstjóri Datos, sagði reyndar í desember að það væri engin lokadagsetning á Dato. Þrátt fyrir þessi orð ritstjórans í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í fyrra varð lokadagsetning Datos 19. apríl 2007.

Hjá útgáfufélaginu Det Berlingske Officin er það orðað þannig að Dato hætti en Urban, annað fríblað útgáfunnar, verði styrkt. Til marks um þann samruna ber Urban merki beggja blaða í dag.

Eftir 166 eintök á átta mánuðum segir yfirmaður Berlingske-samsteypunnar nú að ekki hafi reynst markaður fyrir fríblaðið Dato sem dreift var inn á dönsk heimili. Hins vegar sé markaður fyrir fríblað sem dreift er í umferðinni og þar hafi Urban sterka stöðu.

Auglýsingatekjur Datos voru undir væntingum, en í síðasta blaðinu í gær voru auglýsingar á um fjórðungi síðna blaðsins. Til samanburðar eru auglýsingar á um helmingi síðna Urbans í dag.

Ritstjóri hins íslenska Nyhedsavisens segir í dönskum fjölmiðlum að endalok Datos komi sér ekki á óvart. Í viðskiptablaðinu Børsen í dag meta sérfræðingar stöðuna þannig að enn sé að minnsta kosti einu fríblaði of mikið í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×