Erlent

Óttast hefndaraðgerðir í kjölfar fjöldamorðanna

Nemendur við Virginia Tech háskólann í Bandaríkjunum minnast látinna samnemenda.
Nemendur við Virginia Tech háskólann í Bandaríkjunum minnast látinna samnemenda. MYND/AFP

Suður-kóreskir stúdentar í Bandaríkjunum óttast að verða fyrir hefndarárásum í kjölfar fjöldamorðanna í Virginia Tech háskólanum í Blacksburg í Virginíufylki í gær. Stúdentar frá Suður-Kóreu skipa stærsta hóp erlendra námsmanna í Bandaríkjunum og hafa suður-kóresk stjórnvöld lýst yfir áhyggjum vegna málsins.

Nokkur hræðsla hefur gripið um sig meðal suður-kóreskra stúdenta í Bandaríkjunum eftir að landi þeirra gekk berskerksgang í Virginia Tech háskólanum í Blacksburg í Virginíufylki í gær og myrti 32 einstaklinga. Um 500 suður-kóreskir námsmenn stunda nám við Virginia Tech háskólann en um 15 prósent allra erlendra námsmanna í Bandaríkjunum eru frá Suður-Kóreu. Óttast kóresku stúdentarnir að verða fyrir barðinu á fordómum og hefndarárásum.

Haft er eftir SunWoong Kim, forseta Sambands kóreskra-bandarískra háskólaprófessora, í frétt Reuters um málið að skotárásin muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Suður-Kóreubúa í Bandaríkjunum.

Fyrr í dag lýsti utanríkisráðherra Suður-Kóreu því yfir að hann óttist að Suður-Kóreubúar sem búsettir eru í Bandaríkjunum verði fyrir fordómum í kjölfar morðanna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×