Erlent

Framtíð Wolfowitz enn óráðin

Framtíð Pauls Wolfowitz, bankastjóra Alþjóðabankans, er enn óráðin þrátt fyrir yfirlýsingar hans um að ætla aðsitja sem fastast áfram. Wolfowitz hefur viðurkennt að hafa veitt ástkonu sinni sem einnig starfar við bankann ríflegar launa- og stöðuhækkanir.

Það hefur heldur betur syrt í álinn fyrir Paul Wolfowitz, bankastjóra Alþjóðabankans og fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að undanförnu.

Ástæða vandræða hans nú er að skömmu eftir að hann tók við embætti sínu var ákveðið að flytja unnustu hans, Shaha Riza, úr starfi sínu hjá bankanum yfir í bandaríska utanríkisráðuneytið til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

Áður en af því varð veitti Wolfowitz henni hins vegar ríflega launa- og stöðuhækkun, nokkuð sem er sérstaklega viðkvæmt fyrir þessa stofnunsem krefst þess af skuldunautum sínum að þeir uppræti spillingu í stjórnkerfi sínu.

Á blaðamannafundi í gær sagðist Wolfowitz ætla að halda starfi sínu áfram enda teldi hann orðspor bankans ekki hafa beðið hnekki þrátt fyrir afglöp sín. Starfsmannafélag bankans er hins vegar á öðru máli og hefur skorað á Wolfowitz að taka pokann sinn og þrýstingur á stjórn bankans fer stöðugt vaxandi um að segja honum upp.

Á árlegum vorfundi þróunarmálaráðherra sem bankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stóðu fyrir í Washington um helgina létu ráðherrar Vestur-Evrópuríkjanna í ljós miklar áhyggjur um trúverðugleika bankans en efasemdir um skipun hans voru hvað mestar úr þeirri áttinni. Á næstu dögum mun því framtíð hins umdeilda Wolfowitz ráðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×