Enski boltinn

Mourinho: Pressan er á Man. Utd.

Sálfræðistríðið á milli Mourinho og Ferguson er hafið.
Sálfræðistríðið á milli Mourinho og Ferguson er hafið. MYND/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur aðvarað kollega sinn hjá Manchester United, Sir Alex Ferguson, með því að segja að nú sé pressan öll á þeim rauðklæddu. Segja má að Mourinho sé formlega búinn að hefja sálfræðistríðið sem verður væntanlega í gangi næstu vikurnar.

"Nú er það Man. Utd. sem er undir pressu. Þetta hefur verið góð helgi fyrir okkur og við höfum létt á pressunni í deildinni, en framundan eru leikir í bikarkeppninni og Meistaradeildinni og því erum við að einbeita okkur að þeim núna. Ég vill tala sem minnst um úrvalsdeildina á þessu stigi," sagði Mourinho við enska fjölmiðla í gær.

Mourinho hefur fulla trú á sínu liði og telur það ennþá eiga góða möguleika á að vinna fjórfalt í ár, en liðið hefur þegar unnið enska deildarbikarinn, auk þess sem Chelsea á enn möguleika á sigri í hinni bikarkeppninni, Meistaradeildinni og að sjálfsögðu ensku úrvalsdeildinni. "En það má lítið út af bregða. Við getum líka tapað öllum þessum keppnum," bætti Mourinho við.

Mourinho tjáði sig einnig um leik Man. Utd. og Roma í Meistaradeildinni í vikunni. "Ég óska þeim góðs gengis og vona að Man. Utd. vinni," sagði Mourinho og kom bresku fjölmiðlamönnunum nokkuð í opna skjöldu með þessum ummælum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×