Enski boltinn

Curbishley vill halda Tevez

Carlos Tevez hefur ekki skorað nema þrjú mörk fyrir West Ham á leiktíðinni.
Carlos Tevez hefur ekki skorað nema þrjú mörk fyrir West Ham á leiktíðinni. MYND/Getty

Knattspyrnustjóri West Ham, Alan Curbishley, hefur greint frá því að hann vilji halda argentínska sóknarmanninum Carlos Tevez í herbúðum liðsins á næsta ári, jafnvel þó að West Ham falli úr úrvalsdeildinni. Eftir erfiða byrjun hefur Tevez verið að spila mjög vel í síðustu leikjum liðsins.

Tæknilega er Tevez ekki leikmaður West Ham, heldur er hann í raun í eigu fjárfestingarfélagssins MSI sem síðan lánar hann til Eggerts Magnússonar og félaga. Curbishley segir alls ekki víst að West Ham hafi forkaupsrétt á Tevez eftir tímabilið, auk þess sem enska 1. deildin munu hugsanlega ekki heilla Argentínumanninn.

“Það eru til peningar til að kaupa hann, en ég held að það eigi við einnig við um fjölmörg önnur félög. Við verðum að sjá til hvað gerist í sumar,” sagði Curbishley jafnframt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×