Enski boltinn

Everton valtaði yfir Fulham

Lee Carsley fagnar jöfnunarmarki sínu
Lee Carsley fagnar jöfnunarmarki sínu Getty Images

Everton lögðu Fulham sannfærandi á Goodison Park í seinni leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni, 4-1. Carlos Bocanegra kom Fulham yfir snemma leiks en það varð ekki til annars en að kveikja duglega í Evertonmönnum sem settu þrjú mörk áður en hálfleikurinn var úti. Það voru Lee Carsley, Alan Stubbs og James Vaughan sem skoruðu mörkin.

Fulham komu heldur betur stemmdir í seinni hálfleikinn og var Brian McBride nærri því að minnka muninn þegar um tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Lengra komust Fulham-menn þó ekki og það voru Evertonmenn sem skoruðu meira, varamaðurinn Victor Anichebe rak síðasta naglann í líkkistu Fulham tíu mínútum fyrir leikslok.

Heiðar Helguson kom inn á í lið Fulham þegar um 20 mínútur voru til leiksloka og átti tvo góða skalla að marki undir lokin, auk þess sem hann átti réttmætar heimtur á vítaspyrnu í blálokin, en Dermot Gallgher dómari leiksins var spar á flautuna sem fyrr í leiknum og Heiðar uppskar ekkert.

Everton lyftir sér með sigrinum í fimmta sæti deildarinnar, í það minnsta þar til leikir morgundagsins eru búnir en Fulham er aftur á móti í bullandi fallbaráttu, í 15. sæti með 35 stig, aðeins fjórum stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×