Erlent

Nemendur sneru aftur í skólann hálfu ári eftir skotárás

Nýja skólabyggingin í Nickel Mines.
Nýja skólabyggingin í Nickel Mines. MYND/Getty Images

Nemendur í amish-bænum Nickel Mines í Pennsylvaníu sneru í dag aftur í skólann, hálfu ári eftir að maður gekk þar berserksgang og drap fimm stúlkur. Flutningabílstjórinn Charles Roberts komst í heimsfréttirnar á síðasta ári þegar hann gekk inn í skólann í Nickel Mines vopnaður byssu og raðaði tíu stúlkum upp og skaut svo á þær.

Fimm þeirra létust en hinar fimm særðust en sjálfur tók Roberts eigið líf eftir skotárásina. Atvikið olli að vonum miklu uppnámi meðal íbúa þessa friðsæla bæjar og var ákveðið að rífa skólabygginguna og reisa nýja.

Í dag var svo fyrsti dagurinn í nýrri skólabyggingu en þar sem amish-fólk hafnar ýmsum þægindum nútímans er hvorki rafmagn né sími skólanum. Fjórar af stúlkunum fimm sem særðust í árásinni voru í hópi þeirra barna sem mættu í skólann í dag en sú fimmta á enn langt í land með að ná bata eftir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×