Enski boltinn

Defoe vill fá fleiri tækifæri

Jermain Defoe virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá Steve McLaren, þjálfara enska landsliðsins.
Jermain Defoe virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá Steve McLaren, þjálfara enska landsliðsins. MYND/Getty

Enski sóknarmaðurinn Jermain Defoe hjá Tottenham hefur viðurkennt að hann sé svekktur með hversu fá tækifæri hann hafi fengið með enska landsliðinu í gegnum tíðina. Búist er við því að það verði Andy Johnson sem spili við hlið Wayne Rooney í fremstu víglínu enska liðsins gegn Ísrael í dag, sem þýðir að Defoe þarf að taka sér sæti á bekknum - eins og svo oft áður.

"Staða mín hjá enska liðinu getur verið svekkjandi, sérstaklega þegar þér finnst þú eiga tækifærið svo innilega skilið," sagði Defoe, en hann var ekki í enska landsliðshópnum sem tók þátt á HM í Þýskalandi í sumar þegar Theo Walcott var tekinn fram yfir hann.

Defoe skoraði tvívegis fyrir England í fyrsta leik liðsins í undakeppni EM gegn Andorra á síðasta ári og telur sig hafa gert nóg til að verðskulda sæti í byrjunarliðinu, sérstaklega við þær aðstæður sem enska liðið þarf að búa við núna í meiðslum Michael Owen og Darren Bent.

"Á ákveðnum tímapunkti spyr maður sjálfan sig: Hvað meira get ég gert? En ég ætla ekki að hengja haus heldur halda áfram að leggja hart að mér og vona að það skili einhverjum árangri. Þegar ég fæ síðan tækifærið mun ég vera tilbúinn," segir Defoe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×