Enski boltinn

Benitez vill varaliðin í deildarkeppnina

AFP

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, hefur nú enn á ný áréttað að hann vilji sjá varalið stóru liðanna í úrvalsdeildinni skráð til keppni í neðri deildunum á Englandi. Hann segir þetta nauðsynlegt til að byggja upp betra landslið. Þetta fyrirkomulag segir hann hafa dugað vel í Frakklandi, Spáni og í Þýskalandi.

"Varaliðsleikirnir eru ekki nógu góðir til að þroska yngri leikmenn, því þar eru aðeins spilaðir 18 leikir á tímabili og þar er kepnin ekki nógu mikil til að þroska leikmennina fyrir þau átök sem bíða þeirra eftir 18-20 ára aldurinn. Ég hef vakið máls á þessu á þeim þremur árum sem ég hef verið á Englandi, því ég sé fullt af 17 ára guttum sem ná ekki þeim framförum sem þeir gætu náð ef þeir spiluðu meira.

Ég stýrði einu sinni Castilla, varaliði Real Madrid, og þar vorum við með 18-19 ára gamla stráka sem voru að spila í annari deildinni á Spáni. Þar fengu þessir strákar að spreyta sig gegn fullorðnum mönnum og enduðu í fjórða og sjötta sæti í deildinni. Ég sé ekki af hverju menn ættu ekki að gera þetta á Englandi ef efniviðurinn er til staðar," sagði Benitez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×