Enski boltinn

Chelsea og Man Utd kláruðu dæmið

Chelsea lagði Tottenham á White Hart Lane í kvöld
Chelsea lagði Tottenham á White Hart Lane í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Chelsea og Manchester United eru komin í undanúrslit enska bikarsins eftir góða sigra í kvöld. Chelsea lagði granna sína í Tottenham 2-1 á útivelli og Manchester United kláraði Middlesbrough 1-0 á Old Trafford.

Chelsea lagði Tottenham 2-1 með laglegum mörkum frá Andriy Shevchenko og Shaun Wright-Phillips, en Robbie Keane minnkaði muninn fyrir heimamenn úr vítaspyrnu. Fyrri hálfleikur var frekar dapur en Chelsea gerði út um leikinn snemma í þeim síðari með tveimur mörkum á stuttum tíma. Heimamenn hleyptu lífi í leikinn á ný þegar Keane skoraði úr víti 11 mínútum fyrir leikslok, en lengra komust þeir hvítklæddu ekki að þessu sinni og geta sjálfum sér um kennt eftir að hafa misst niður 3-1 forystu í fyrri leiknum.

Manchester United átti fremur náðugan dag gegn Middlesbrough en þar var það hinn magnaði Ronaldo sem skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í síðari hálfleik eftir að Jonathan Woodgate klippti hann niður í vítateignum.

Chelsea mætir Blackburn í undanúrslitunum og Manchester United leikur við Watford, en þessir leikir fara fram þann 14. apríl. Enn er því möguleiki á hinum svokallaða draumaúrslitaleik milli Manchester United og Chelsea. Úrslitaleikurinn í enska bikarnum fer fram laugardaginn 19. maí. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×