Enski boltinn

Beckham hefur engar áhyggjur af félögum sínum

Fyrrum landsliðsfyrirliðinn David Beckham hjá Real Madrid segist ekki hafa neinar áhyggjur af fyrrum félögum sínum í enska landsliðinu fyrir leikina gegn Ísrael og Andorra í undankeppni EM á næstu dögum.

"Þeir spjara sig strákarnir. Það eru allt of margir hágæða knattspyrnumenn í hópnum til að missa af sæti á EM svo ég hef engar áhyggjur af þeim. Þeir eiga vissulega nokkra erfiða leiki fyrir höndum, en ég hef trú á því að þeir klári verkefnið. Sjáið bara Wayne Rooney - hann hafði ekki skorað lengi en setti tvö mörk um helgina og svo skoraði Andy Johnson sigurmarkið á móti Arsenal. Ég hef æft lengi með þessum strákum og þeir eiga eftir að klára verkefnið, enda margir af bestu knattspyrnumönnum heims," sagði Beckham.

Englendingar þurfa nauðsynlega á sigri að halda í leikjunum tveimur því annars á liðið á hættu að enda fyrir neðan Króata og Rússa í riðlinum og missa þar með af sæti á næsta stórmóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×