Erlent

Chirac styður engan

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, lýsti því formlega yfir í gærkvöldi að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum í næsta mánuði. Hann lýsti ekki yfir stuðningi við neinn frambjóðanda líkt og búist var við.

Þar til í gærkvöldi hafði Chirac ekkert viljað gefa út um það hvort hann ætlaði aftur í framboð eða ekki. Í vor lýkur því fjörutíu og fimm ára ferli eins litríkasta stjórnmálamanns Frakka. Chirac, sem er sjötíu og fjögurra ára, hefur verið forseti í tólf ár, frá árinu 1995. Vinsældir forsetans hafa dvínað síðustu vikur og mánuði og því var talið næsta víst að hann ætlaði ekki í baráttuna.

Í sjónvarpsávarpi sínu í gærkvöldi útskýri Chirac ekki ákvörðun sína og sagðist áfram ætla að þjóna Frakklandi á öðrum vettvangi. Hann lýsti sýn sinni fyrir Frakklandi til næstu tíu ára, hvatti landa sína til að hafna kynþáttafordómum og hjálpa til við að styrkja Evrópusambandið.

Chirac lýsti ekki yfir stuðningi við nokkur þeirra sem berjast um embættið - ekki einu sinni við innanríkisráðherrann og flokksbróður sinn, Nicolas Sarkozy.

Tæpar sex vikur eru til kosninga og þrír frambjóðendur taldir sigurstranglegastir. Auk Sarkozy eru það sósíalistinn Segolene Royal og óvæntur keppinautur þeirra, miðjumaðurinn Francois Bayrou. Sarkozy er sagður hafa naumt forskot á þau tvö. Þjóðernissinninn Jean-Marie Le Pen lýsti yfir framboði sínu í lok febrúar en þetta er í fimmta sinn sem hann sækist eftir embættinu. Hann koms óvænt í aðra umferð gegn Chirac fyrir sex árum. Ekki er búist við að hann nái jafn góðum árangri nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×