Enski boltinn

McClaren: Beckham kemur mér í vanda

NordicPhotos/GettyImages

Steve McClaren landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu viðurkennir að David Beckham sé að skapa sér vandamál með góðri frammistöðu sinni með Real Madrid undanfarið, en McClaren hefur ekki enn valið Beckham í landsliðshóp sinn síðan hann tók við enska liðinu.

Nokkur þrýstingur hefur verið á McClaren undanfarið að kalla fyrrum fyrirliðann aftur inn í landsliðið og þá hefur Beckham lýst því yfir að hann vilji ólmur spila fyrir landsliðið á ný.

"Þetta er dæmigerð frammistaða hjá David Beckham því hann hefur alltaf komið sterkur til baka í hvert sinn sem hann hefur lent í mótlæti á ferlinum. Beckham hefur sýnt gott fordæmi sem atvinnumaður og fyrir stuttu var sem hann hefði spilað sinn síðasta leik fyrir Real - en hann sneri aftur í Meistaradeildinni í gær og var maður leiksins í sigri á Bayern Munchen.

Þetta skapar mér ákveðin vandamál í uppstillingu landsliðsins en svona vandamál eru vandamál sem maður fagnar. Ég vil frekar að landsliðsmennirnri séu allir að spila vel frekar en ekki. Það verður áhugavert að sjá hvað gerist í framtíðinni, það eru fjórar vikur áður en ég tilkynni næsta hóp og ég hef aldrei lokað hurðinni á neinn," sagði McClaren í samtali við Sky.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×