Íslenski boltinn

Formaður dómara bjartsýnn

Rofað hefur til í kjaraviðræðum knattspyrnudómara og KSÍ en samningafundur síðdegis í dag gekk framar vonum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Eins og fram hefur komið eru knattspyrnudómarar í efstu deildum hér á landi eru allir samningslausir og hafa staðið í kjaraviðræðum við KSÍ. Dómarar hafa farið fram á umtalsverða hækkun launa og bætingu aðbúnaðar við störf sín. Hljóðið var þungt í þeim dómurum sem íþróttadeild Stöðvar 2 ræddi við um nýliðna helgi.

Nokkrir reyndir dómarar hafa jafnvel íhugað alvarlega að hætta dómgæslu alfarið vegna þeirrar stöðu sem upp er komin og virtist langt í land með að samningar næðust.

En kjaranefnd dómara átti síðdegis í dag samningafund með Geir Þorsteinssyni framkvæmdarstjóra KSÍ og fleiri aðilum sambandsins. Magnús Þórisson formaður deildardómara var meðal þeirra sem sat fundinn fyrir hönd dómara og hann var nokkuð sáttur og bjartsýnn að fundi loknum. Ákveðið hefur verið að hittast aftur í lok vikunnar.

Dómari fékk á síðasta tímabili 7.770 krónur í laun fyrir að dæma leik í Landsbankadeild karla. Við þá upphæð bætast 4000 krónur í dagpeninga vegna undirbúnings, grunntaxtinn í akstursgreiðslur er 1900 krónur innanbæjar auk matarpeninga samkvæmt BSRB taxta.

Í kjölfar þessarar umræðu kom það svo upp að næsti stjórnarfundur KSÍ verður haldinn í London, nánar tiltekið á Upton Park, heimavelli West Ham n.k. laugardag. Spurningar um það hver borgaði brúsann vöknuðu í kjölfarið og klukkan átta í gærkvöldi birtist frétt á heimasíðu KSÍ þar sem fram kemur að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri greiði sjálfir sinn ferðakostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×