Íslenski boltinn

Gylfi gagnrýnir vinnubrögð KSÍ

Gylfi Orrason
Gylfi Orrason mynd/gva

Gylfi Orrason knattspyrnudómari gefur lítið fyrir þær fullyrðingar knattspyrnusambands Íslands að sambandið hafi reynt til fullnustu að fá Kristin Jakobsson hækkaðan um styrkleikalista dómara hjá UEFA. Formaður KSÍ kveðst sár yfir fréttaflutningi þessa efnis.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær varð ekkert af því að Kristinn yrði færður upp í B-flokk dómara nú um áramótin eins og vonir stóðu til en dómarar í þeim flokki dæma á meðal þeirra bestu, m.a. í Meistaradeildinni.

Þetta olli talsverðum vonbrigðum meðal þeirra dómara sem íþróttadeildin ræddi við. Kristinn sjálfur neitar enn staðfastlega að tjá sig um málið opinberlega en Gylfi Orrason segir að í raun hefði KSÍ með meiri vilja að vopni getað þrýst á að koma Kristni upp um flokk.

"Menn eiga náttúrulega bara að berja í borðið og skella hurðum til að fá þetta í gegn" sagði Gylfi meðal annars í viðtali við Stöð 2 í kvöld. Gylfi tók einnig fram að dómarar sem dæmt hefðu með Kristni á heimsmeistamóti landsliða undir 19 ára í Póllandi á síðasta ári hefði flestir hverjir komnist upp í B-flokk dómara nú um áramótin og þar með skotist upp fyrir Kristin.

Gylfi sagði að allir þeir dómarar væru með lægri einkunnagjafir fyrir dómagæslu sína en Kristinn sem var verðlaunaður fyrir frammistöðu sína á mótinu með því að hann var látinn dæma úrslitaleikinn.

Eggert Magnússon formaður KSÍ vildi ekki veita viðtal vegna málsins í dag en vildi koma á framfæri að hann væri sár yfir því að haldið skuli vera fram að hann hafi ekki gert nóg í málum Kristins. Hann hafi gert meira en eðlilegt þyki sem meðlimur í framkvæmdastjórn UEFA og formaður KSÍ til þess að fá Kristin hækkaðan um styrkleikaflokk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×