Erlent

Fundust eftir níu daga í björgunarbát

MYND/AP

Fjórtán manns sem fóru í sjóinn þegar ferja sökk úti fyrir eyjunni Borneó í Indónesíu fundust í gær eftir að hafa verið í björgunarbát í níu daga. Frá þessu greindu yfirvöld í Indónesíu í dag.

Fimmtánda manneskjan í bátnum lést skömmu eftir að hópnum hafði verið bjargað um borð í flutningaskip. Eftir því sem AP-fréttastofan greinir frá hafði bátinn rekið nærri 600 kílómetra áður en hann fannst en sjórinn við Indónesíu er það heitur að fólk hefur lifað í honum dögum saman.

Ferjan sem sökk 29. desember var á leið frá Borneó til Jövu með um 650 farþega og hafa tæplega 250 fundist á lífi en björgunarmenn hafa aðeins fundið tíu látna farþega úr ferjunni.

Yfirvöld hafa rannsakað slysið og grunar að öldur hafi gengið yfir skipið með þeim afleiðingum að því hvolfdi. Er óttast að stórum hópi fólks hafi ekki tekist að komast frá borði áður en það gerðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×