Erlent

Slysalaus pílagrímsganga

Á myndinni sjást tveir af þremur steinveggjum, sem pílagrímarnir grýta á Jamarat-brúnni.
Á myndinni sjást tveir af þremur steinveggjum, sem pílagrímarnir grýta á Jamarat-brúnni. MYND/AP
Engin stærri slys hafa orðið í pílagrímsferð múslima í og við Mekka í Sádi-Arabíu. Meira en tvær og hálf milljón múslima taka í dag þátt í lokagrýtingarathöfninni, þar sem 362 pílagrímar létust fyrir tæpu ári síðan. Pílagrímarnir þakka Allah, - og umfangsmiklum öryggisráðstöfunum Sádi-Araba.

Í dag fara pílagrímarnir í þriðja skipti yfir Jamarat-brúna til að henda steinum í þrjá steinveggi, sem táknmynd fyrir að grýta djöfulinn og fá fyrirgefningu syndanna. Seinna í dag fara pílagrímarnir aftur í aðalmoskuna í Mekka, þar sem skrínið helga, Kaaba, stendur í miðjunni. Pílagrímarnir ganga sjö sinnum rangsælis í kringum Kaaba. Þrjá hringi ganga þeir rösklega en seinni fjóra hringina ganga menn á hægar.

Sádi-Arabar hafa eytt meira en 70 milljörðum í öryggisráðstafanir, sérstaklega við Jamarat-brúna, þar sem 362 pílagrímar tróðust undir á lokadegi síðustu pílagrímsgöngu, eftir að einhverjir hnutu um farangur sem skilinn hafði verið eftir. Nú hefur brúin verið stækkuð og endurbætt þannig að 250 þúsund pílagrímar geti farið þar yfir á klukkustund. Auk þess eru fleiri en 50 þúsund öryggisverðir á vakt til að koma í veg fyrir of miklar þvögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×