Lögreglan í Belgíu rannsakar nú fréttir þess efnis að Madeleine McCann, litla stúlkan sem hvarf af hótelherbergi í Portúgal gæti verið í landinu. Belgísk kona hafði samband við lögreglu eftir að hún sá stúlku á veitingastað nálægt Maastricht sem hún sagði hafa verið sláandi líka Madeleine. Stúlkan var í för með enskumælandi konu og hollenskum karlmanni að sögn vitnisins og tekur lögreglan ábendinguna mjög alvarlega. Fréttastofa Sky greinir frá þessu.
Konan, sem er barnasálfræðingur, hringdi í lögreglu af veitingastaðnum en þegar hún kom aftur að borði sínu var fólkið horfið. Stúlkan á veitingastaðnum hafði verið að drekka úr gosflösku sem nú er til rannsóknar. Þetta er í annað sinn sem fréttir berast af því að Madeleine gæti verið í Belgíu en þann fyrsta júní síðastliðinn taldi belgískt par sig hafa séð telpuna fyrir utan dómkirkjuna í Liege.
Er Madeleine í Belgíu?
