Erlent

Bhutto heimsækir heimasveitina

Þórir Guðmundsson skrifar

Benazir Bhutto lét líflátshótanir ekki aftra sér frá því að heimsækja gröf föður síns í heimasveit sinni í Pakistan í dag. Um fjögur þúsund stuðningsmenn Benazir Bhutto tóku á móti henni við komuna til Sindh, þar sem hennar pólitíska bakland er.

Þetta er fyrsta ferð hennar út fyrir Karachi síðan hún kom til Pakistans úr útlegð. Þá létu 143 stuðningsmenn hennar lífið í sprengjutilræði sem gert var við hana á leið hennar af flugvellinum.

Í heimaþorpi hennar er búið að reisa grafhvelfingu yfir gröf föður hennr, Zulfikars Ali Bhutto forsætisráðherra, sem herstjórinn Zia ul Haq steypti og lét taka af lífi. Benazir dóttir hans stráði rósum yfir leiði hans í dag. Bhutto hefur mikinn stuðning í Sindh héraði og fólk sem mætti til að sjá hana í dag sagði að það væri hughreystandi að hún skyldi leggja á sig slíkt ferðalag þrátt fyrir líflátshótanir.

Kosið verður í Pakistan í janúar og þá vonast Benazir Bhutto til að verða forsætisráðherra í þriðja sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×