Erlent

Bresk stjórnvöld fóru ekki löglega og rökrétta leið

MYND/AP

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sagði í dag að bresk yfirvöld hefðu ekki valið löglega og rökrétta leið til þess að fá lausa 15 sjóliða sem handteknir voru úti fyrir ströndum Íraks í síðustu viku.

Í ávarpi á fjöldafundi í Khuzestan við landamæri Íraks í dag sagði Ahmadinejad að í stað þess að biðjast forláts og lýsa yfir eftirsjá hefðu Bretar sagt að Íranar væru skuldbundnir þeim og að þeir hefðu leitað til ýmissa alþjóðastofana. Sagði Ahmadinejad að bresku sjóliðarnir hefðu farið inn í íranska landhelgi og að hin hugaða strandgæsla Írans hefði handsamað þá.

Fram kemur á fréttavef Reuters að fundargestir í Khuzestan hefðu hrópað slagorð og haldið á spjöldum gegn Bretlandi. Sjóliðarnir fimmtán voru handteknir 23. mars og hafa Bretar hótað því að fara með málið fyrir Sameinuðu þjóðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×