Lögreglumönnum í stærstu borgum Rússlands var í dag fjölgað um rúmlega fimm þúsund til þess að bregðast við aukinni hryðjuverkaógn í landinu. Í gær sendu yfirvöld í Rússlandi frá sér yfirlýsingu um að hryðjuverkamenn gætu gert árásir á samgöngukerfi stærstu borga Rússlands.
Upplýsingarnar komu frá erlendum samstarfsaðilum rússnesku andhryðjuverkastofnunarinnar. Lögreglumenn með sprengjuleitarhunda voru staðsettir á mörgum neðanjarðarlestarstöðvum í Moskvu og Pétursborg.
Nokkrar sprengjuárásir hafa verið gerðar á samgöngukerfi rússneskra stórborga á síðastliðnum tólf árum og hefur aðskilnaðarsinnum frá Téténíu verið kennt um þær flestar.