Enski boltinn

Charlton ekki lengur í fallsæti

Getty Images

Charlton lyftu sér úr fallsæti með markalausu jafntefli gegn Manchester City í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Það var fátt um fína drætti í leiknum sem einkenndist af varnarleik á báða bóga. Hermann Hreiðarsson lék allan tímann í vörn Charlton. Charlton eru fyrir vikið með jafn mörg stig og Sheffield United og sama markamun en hafa skorað meira og eru því í sautjánda sæti en Sheffield í því átjánda.

Sheffield á hins vegar leik til góða en þeir fá Newcastle í heimsókn á Bramall Lane á morgun. Mikil spenna er að hlaupa í fallbaráttuna og ljóst að neðstu liðin munu berjast til síðasta manns um hvert stig sem er í boði. Íslendingaliðið West Ham mætir Arsenal á Emirates Stadium á morgun en þeir hafa verið á ágætri siglingu í síðustu leikjum en eiga þar erfitt verk fyrir höndum.

Nú er svo komið að aðeins er 6 stiga munur á liðinu í 13. sæti, sem einmitt er Manchester City, og liðinu í 18. sæti, Sheffield United. Watford er svo gott sem fallið, er með 20 stig kirfilega á botni deildarinnar og West Ham eru næst neðstir með 26 stig. Charlton og Sheffield eru svo með 31 stig í 17. og 18. sæti.

Innan skamms hefst svo leikur Everton og Fulham. Everton-menn sigla lygnan sjó í efri hluta deildarinnar og eiga ágæta möguleika á að krækja í sæti í Evrópukeppni félagsliða en Heiðar Helguson og félagar í Fulham slást enn við falldrauginn, eru í 15. sæti með 35 stig, aðeins fjórum stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×