Enski boltinn

Engin skrúðganga hjá Sunderland

NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn Sunderland hafa ákveðið að afþakka boð borgaryfirvalda um að halda skrúðgöngu í tilefni þess að liðið vann sér sæti í úrvalsdeildinni á ný. Þetta segja þeir til marks um nýja stefnu félagsins, sem ætli sér annað og meira en bara að tryggja sér úrvalsdeildarsætið.

Sunderland hélt mikla sigurskrúðgöngu þegar liðið vann sigur í 1. deildinni fyrir tveimur árum þegar liðið sigraði með glæsibrag og vann sér sæti í úrvalsdeild. Ekki varð árangurinn í efstu deild merkilegur árið eftir og liðið húrraði beint niður aftur.

"Það er langt í land þó við séum komnir upp á ný og við ákváðum að afþakka gott boð frá borgaryfirvöldum með samþykki Roy Keane knattspyrnustjóra. Við vonum að stuðningsmennirnir verði ekki fúlir yfir þessu, en þetta er yfirlýsing frá okkur um það að við erum ekki sáttir við þann árangur sem þegar hefur náðst og ætlum okkur meira. Nú hefst baráttan fyrir alvöru," sagði Niall Quinn, stjórnarformaður félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×