Erlent

1861 óbreyttur borgari fórst í átökum í Írak í mars

AFP

1861 óbreyttur borgari fórst í árásum og átökum í Írak í nýliðnum marsmánuði. Það er 13 prósenta aukning frá því í febrúar þegar 1645 fórust. Þetta eru opinberar tölur frá ríkisstjórn Íraks. Mannskæðasta einstaka árás uppreisnarmanna frá upphafi stríðsins var á miðvikudaginn þegar 165 fórust í borginni Tal Afar.

Svo virðist sem stórhertar öryggisráðstafanir í landinu sem innleiddar voru í byrjun mars séu enn ekki farnar að skila tilætluðum árangri, að minnsta kosti styðja þessar tölur ekki þá fullyrðingu sendiherra Bandaríkjanna í Írak um að ofbeldi hafi minnkað um fjórðung frá því að öryggisáætlunin tók gildi.

Rúm fjögur ár eru frá því að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra réðust inn í Írak og í maí verða fjögur ár síðan Bush Bandaríkjaforseti lýsti yfir fullnaðarsigri. Samkvæmt opinberum tölum hafa yfir 60 þúsund farist frá byrjun stríðsins en þó hafa heyrst margfalt hærri tölur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×