Erlent

Herstjórnin skýtur að búddamunkum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Munkar og mótmælendur á götum Rangoon eftir að táragasi var skotið að hópnum.
Munkar og mótmælendur á götum Rangoon eftir að táragasi var skotið að hópnum. MYND/AFP

Hermenn herforingjastjórnarinnar í Myanmar skutu aftur að mómælendum í Rangoon stærstu borg landsins í morgun. Vitni segja einn hafa fallið í jörðina í skothríðinni. Talið er að um 70 þúsund manns mótmæli á götum borgarinnar. Hermennirnir ráðast einnig að fólkinu og berja það með byssusköftum.

Stjórnin hafði skipað mótmælendum að fara heim, ella yrði skotið að þeim.

Hermenn eru fluttir á vörubílum inn í miðborgina. Þeir skjóta táragasi að fólkinu og vara fólkið við áframhaldandi mótmælum með gjallarhornum.

Útsendingar erlendra sjónvarpsstöðva frá staðnum sýna hundruð mótmælenda flýja hermennina undir táragasskýjum. Þá mun herstjórnin einnig hafa sent stuðningsmenn sína í borgaralegum fötum til að takast á við mótmælendurna.

Í nótt réðust öryggissveitir inn í munkaklaustur og handtóku að minnsta kosti 200 munka eftir að hafa ráðist að þeim með ofbeldi. Fimm féllu fyrir skotum öryggissveita í mótmælunum í gær.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna bað í gær yfirvöld í landinu að sýna stillingu og koma í veg fyrir ofbeldi. Fulltrúar Bandaríkjamanna í ráðinu vildu ganga lengra og beita refsiaðgerðum en Kínverjar ásamt Rússum lögðust gegn slíkum hugmyndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×