Erlent

Vill minnka bandarísk áhrif

Hugo Chavez vill auka áhrif Venesúela í Suður-Ameríku á kostnað Bandaríkjanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Hugo Chavez vill auka áhrif Venesúela í Suður-Ameríku á kostnað Bandaríkjanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. MYND/AP

Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur heitið forsetum Argentínu og Úrúgvæ ýmiss konar stuðningi í heimsóknum sínum til landanna. Forsetinn vill auka áhrif Venesúela í álfunni og reyna að draga úr áhrifum Bandaríkjanna.

Chavez lofaði að kaupa argent­ínsk ríkisskuldabréf upp á rúma sextíu milljarða króna auk þess sem hann ætlar að aðstoða við að byggja 2,5 milljarða króna gas­verksmiðju. Forsetinn sagði mark­miðið með fjárstuðningnum að aðstoða ríkisstjórn Argentínu við að byggja upp efnahag landsins án þess að þurfa að reiða sig á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF).

Chavez lofaði Tabare Vazquez, forseta Úrúgvæ, að hjálpa honum við að byggja fleiri olíuhreinsi­stöðvar í landinu og hét því að sjá honum fyrir olíu og gasi um ókomin ár.

Búist er við því að hann muni lofa forseta Ekvador, Rafael Correa, svipuðum stuðningi, meðal annars fjárstuðningi til að reisa olíuhreinsistöð.

Gagnrýnendur Chavez segja að verra sé fyrir lönd Suður-Ameríku að þurfa að reiða sig á stuðning hans en Bandaríkjanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins; hann sé marg­falt umdeildari og hafi gerst sekur um valdníðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×