Erlent

Shinzo Abe segir ekki af sér þrátt fyrir kosningaósigur

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, ætlar ekki að segja af sér þrátt fyrir að hann viðurkenni ósigur síns flokks í kosningum til efri deildar japanska þingsins í dag. Ekki er þó útilokað að gerðar verði breytingar á ráðherraskipan innan ríkisstjórnarinnar á næstunni.

Japanar gengu að kjörborðinu í dag og kusu um helming sæta í efri deild japanska þingsins. Kosningarnar eru þær fyrstu frá því að Shinzo Abe tók við forsætisráðherraembættinu en það gerði hann í september á síðasta ári. Þrátt fyrir að kosningarnar hafi ekki bein áhrif á Abe töldu stjórnmálaskýrendur að slæmt gengi flokks hans, Frjálslynda demókrataflokksins, gæti orðið til þess að hann yrði að segja af sér.

Samkvæmt útgönguspám fær Japanski lýðræðisflokkurinn flest 242 þingsæta í efri deildinni. Flokkurinn fær þar með embætti forseta deildarinnar og ljóst að erfiðara verður um vik fyrir forsætisráðherrann að koma málum sínum í gegnum þingið. Þrátt fyrir ósigurinn í dag ætlar Abe ekki að segja af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×