Erlent

Sérstakur dómstóll fjalli um morðið á Hariri

Rafik Hariri var myrtur í sprengjutilræði í febrúar 2005.
Rafik Hariri var myrtur í sprengjutilræði í febrúar 2005.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld að settur verði á laggirnar alþjóðlegur dómstóll sem á að rétta yfir sakborningum vegna morðsins á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons.

Ályktunin var samþykkt í ráðinu með 10 atkvæðum gegn engu, en fulltrúar Rússlands, Kína, Suður Afríku, Indónesíu og Qatar sátu hjá. Mikið hefur verið deilt um það í Líbanon hvort koma eigi slíkum dómstól á laggirnar en ríkisstjórn landsins hefur frest fram til 10. júní til þess að samþykkja ályktunina. Geri hún það ekki gæti Öryggisráðið stofnað dómstólinn án samþykkis landsins líkt og gert var í Rwands og í Júgóslavíu á sínum tíma.

BBC hefur eftir syni Hariri að dómstóllinn marki tímamót í sögu landsins og að tilurð hans gefi Líbönum færi á að sameinast.

Ríkin sem sátu hjá við ályktunina segja að stofnun dómstólsins geti verið olía á eldinn í Líbanon þar sem ástandið talið mjög viðkvæmt nú um stundir.

Rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur leitt í ljós að morðið á Hariri hafi „sennilega" verið framið í pólitískum tilgangi og að Sýrlendingar hafi verið viðriðnir ódæðið sem dró 22 til dauða árið 2005. Sýrlensk stjórnvöld neita staðfastlega þeim ásökunum. Sýrlendingar hafa þegar gefið út yfirlýsingu vegna ályktunar Öryggisráðsins þar sem segir að stofnun dómstólsins brjóti á fullveldi Líbanons og gæti ýft ófriðaröldur í landinu.

Assad Sýrlandsforseti hefur einnig látið hafa eftir sér að réttað verði yfir þeim Sýrlendingum sem grunaðir eru í málinu í Sýrlandi og að þeir verði ekki framseldir til alþjóðadómstólsins.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×