Erlent

Stjórnarandstæðingar mótmæla í Pétursborg

Vladímír Pútín og Jean-Claude Van Damme á bardaganum í gær.
Vladímír Pútín og Jean-Claude Van Damme á bardaganum í gær.

Hópur stjórnarandstæðinga í Rússlandi safnaðist saman á torgi í Pétursborg í morgun til þess að mótmæla einræðistilburðum Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands. Lögregla í borginni hefur mikinn viðbúnað líkt og lögreglan í Moskvu gerði í gær þegar hún handtók vel á annað hundrað mótmælendur í höfuðborginni.

Þeirra á meðal var Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák og einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í Rússlandi. Hann var í haldi lögreglunnar í nokkrar klukkustundir og var svo leiddur fyrir dómara þar sem hann var sektaður um jafnvirði 2500 króna fyrir að raska almannafriði.

Nokkrir mótmælendur voru handteknir í morgun þegar þeir komu til Pétursborgar eftir því sem útvarpsstöð í Rússlandi segir en yfirvöld bönnuðu bæði mótmælagöngurnar í gær og í dag. Hins vegar er haft eftir stjórnarandstæðingum úr hópi Kasparovs á fréttavef BBC að þeir eigi von á meiri fjölda en áætlað var í dag vegna þess hvernig rússnesk yfirvöld brugðust við í mótmælunum í Moskvu í gær.

Vladímír Pútín var staddur í Pétursborg í gær þar sem hann sótti bardagakeppni ásamt belgíska leikaranum og bardagatröllinu Jean-Claude Van Damme og Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, sem er mikill áhugamaður um baradagaíþróttir.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×