Forseti Gíneu, Lansana Conte, lýsti yfir herlögum í landinu í dag til þess að reyna að binda endi á þá ofbeldisöldu sem hefur heltekið landið undanfarna daga. Stéttarfélög hafa staðið fyrir mótmælum gegn Conte í tæpan mánuð.
Fyrir stuttu síðan skipaði hann nýjan forsætisráðherra í von um það myndi binda enda á verkföllin sem stéttarfélögin stóðu fyrir en allt kom fyrir ekki. Stéttarfélögin kröfðust þá afsagnar Conte og sögðu hann of gamlan til þess að geta stjórnað landinu og dregið það upp úr þeirri efnahagslegu lægð sem það er í.
Conte sagði hins vegar í dag „Með tilliti til aðstæðna ... eyðileggingar og dauðsfalla, hef ég ákveðið að lýsa yfir herlögum í öllu landinu." og var ávarpi hans útvarpað í ríkisútvarpi Gíneu.