Erlent

Slagurinn er óvenju snemma á ferðinni

John Edwards, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður, hefur sett kraft í kosningabaráttuna eins og mótframbjóðendur hans.
John Edwards, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður, hefur sett kraft í kosningabaráttuna eins og mótframbjóðendur hans. MYND/AP

Enn eru fimmtán mánuðir til forsetakosninga í Bandaríkjunum. Samt er kapphlaupið um að verða forsetaefni flokkanna tveggja komið á fullt skrið og rúmlega það, löngu fyrr en venjulega hefur verið.

Daglegt líf frambjóðendanna er strax orðið heltekið af kosningabaráttunni, með símafundum langt fram á kvöld, ekkert frí á sunnudögum og skyndibitafæði í flest mál.

„Við teljum að nú verði þetta óstöðvandi,“ segir Mike Denney, helsti ráðgjafi repúblikanans John McCain í innanríkismálum. „Svo þegar verkalýðsdagurinn kemur þá erum við komin á blússandi ferð,“ bætti hann við, en verkalýðsdagurinn í Bandaríkjunum er fyrsta mánudag í september ár hvert.

Annar repúblikani, Mitt Romney, tekur daginn snemma, byrjar að vinna klukkan sjö og er að í fjórtán tíma, og hefur jafnan með sér stóran plastpoka fullan af heimatilbúnu múslí sem hann notar bæði í morgunmat og til að narta í milli mála.

Mestur hamagangurinn er í tveimur ríkjum, New Hampshire og Iowa, þar sem fyrstu forkosningarnar hafa venjulega verið haldnar. Niðurstaðan í þessum tveimur ríkjum skiptir máli og ræður oft úrslitum fyrir marga frambjóðendurna. Sumir heltast úr lestinni en aðrir styrkjast í baráttunni.

Venjan er sú að ágúst hafi verið rólegur mánuður, en svo hefur smám saman færst líf í forsetaslaginn þegar líða tekur á haustið ári fyrir kosningarnar. Fyrstu forkosningarnar hafa síðan verið haldnar í byrjun febrúar eða lok janúar, en hafa verið að færast sífellt framar, sem á væntanlega sinn þátt í því að kosningabaráttan hefst fyrr.

„Allt er að gerast fyrr í þetta skipti. Ég held að kosningabaráttan hafi bara byrjað fyrr,“ segir Patricia Harris, prestur í Nashua í New Hampshire, sem hefur hitt alla frambjóðendurna og styður demókratann Hillary Clinton.

Átta demókratar og tíu repúblikanar sækjast eftir því að verða forsetaefni síns flokks í kosningunum, sem haldnar verða fyrsta þriðjudaginn í nóvember á næsta ári.

Þeir eiga mikið starf óunnið. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun segjast 64 prósent demókrata og 71 prósent repúblikana í New Hampshire ekki enn hafa gert upp hug sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×