Erlent

Berklamaðurinn sér eftir flugferðunum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Andrew Speaker heilsar fréttamanni ABC þar sem hann er í einangrun í sérstökum klefa sem hreinsar andrúmsloftið.
Andrew Speaker heilsar fréttamanni ABC þar sem hann er í einangrun í sérstökum klefa sem hreinsar andrúmsloftið. MYND/AP
Bandarískur berklasjúklingur sem ferðaðist smitaður með tveimur farþegaflugvélum yfir Atlantshafið hefur beðist afsökunar í sjónvarpsþætti á að hafa mögulega stofnað öðrum farþegum í hættu.

Maðurinn, Andrew Speaker, sem er lögmaður á fertugsaldri, flaug til Parísar til að gifta sig í síðasta mánuði. Hann vissi að hann væri með berkla, en ekki að hann smitaði. Læknar höfðu ekki bannað honum að ferðast.

Speaker var með grímu í viðtalinu í þættinum Good Morning America á ABC, og sagðist hafa hljóðupptöku sem sannaði að honum hefði einungis verið ráðlagt frá því að ferðast, en ekki bannað það. Læknar sögðu honum að engum í kringum hann væri hætta búin vegna smits, ekki heldur konu hans og dóttur.

Viðtalið var tekið í Denver þar sem Speaker er í sóttkví. Bandarísk og evrópsk yfirvöld hafa reynt að hafa upp á farþegum sem voru í flugunum með honum.

Speaker er með sjaldgæft afbrigði berkla sem er ónæmt fyrir lyfjum. Smithætta er lítil samkvæmt upplýsingum frá Sjúkdómaeftirliti Evrópu. Það mælir þó með að fólk sem sat í um eins meters radíus frá manninum í vélinni láti athuga sig.

Speaker fór til Parísar frá Atlanta 12. maí þar sem hann gifti sig og fór síðan í brúðkaupsferð um Evrópu. Hann kom frá Prag til Montreal í Kanada 24. maí og keyrði til Atlanta þar sem hann var settur í sóttkví undir fyrstu alríkisfyrirskipun þess efnis frá árinu 1963.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×