Erlent

Íbúar Caracas búa sig undir frekari mótmæli

Lögreglumenn í Caracas  eru við öllu búnir.
Lögreglumenn í Caracas eru við öllu búnir. MYND/AP

Búist er við enn frekari mótmælum á götum Caracas, höfuðborgar Venezuela í nótt þegar slökkt verður á útsendindingum sjónvarpsstöðvar sem gagnrýnt hefur forseta landsins Hugo Chavez.

Chavez hefur neitað að endurnýja útsendingarleyfi stöðvarinnar, „Radio Caracas TV", en hann segir að stöðin hafi markvisst reynt að grafa undan ríkisstjórn hans. Leyfið rennur út á miðnætti að staðartíma eða klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma.

Í gær flykktust tugþúsundir manna út á götur borgarinnar og búist er við öðru eins í kvöld. Forsvarsmenn stöðvarinnar og talsmenn mannréttindasamtaka segja að Chavez sé með þessu ganga á tjáningarfrelsið í landinu.

Á miðnætti mun ný stöð hefja útsendingar sem Chaves segir að „endurspegli betur" þjóðfélagið. Ríkisstjórnin hefur þegar veitt fjórum milljónum dollara til þeirrar stöðvar.

Chaves varaði í dag fólk við því að mótmæla og sagði að herinn myndi taka hart á mótmælendum sem hyggðust grípa til ofbeldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×