Erlent

Fjórir ráðherrar voru reknir

Pólski forsætisráðherrann í Varsjá í gær. Tvíburabróðir hans, forsetinn Lech Kaczynski, er við hlið hans.
Pólski forsætisráðherrann í Varsjá í gær. Tvíburabróðir hans, forsetinn Lech Kaczynski, er við hlið hans. MYND/ap

Fjórir ráðherrar úr minni stjórnarflokkunum tveimur voru reknir úr ríkisstjórn Póllands í gær. Ríkisstjórn Póllands hefur því misst meirihluta sinn á þingi og verða haldnar kosningar í landinu í haust, tveimur árum fyrr en áætlað var. Þar með er bundinn endi á stormasamt stjórnar­samstarf Laga- og réttlætisflokks Jaroslaws Kaczynski, forsætis­ráðherra landsins, og Bandalags pólskra fjölskyldna og Sjálfs­varnarflokksins.

Jaroslaw og tvíburabróðir hans, Lech forseti, tilkynntu þetta á blaðamannafundi í Belvedere-höllinni í Varsjá í gær.

Vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki lengur meirihluta á þingi gæti reynst erfitt fyrir hana að koma lögum í gegnum þingið. Á næstunni verður meðal annars kosið um hvort leyfa eigi Bandaríkjunum að byggja eldflauga­varnakerfi í landinu.

En það gæti komið sér illa fyrir Laga- og réttlætisflokkinnn að kosningarnar yrðu haldnar í haust því samkvæmt skoðanakönnunum nýtur hann minna fylgis en Borgaraflokkurinn, helsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Ef flokkurinn tapar í kosningunum mun það binda enda á þær einstöku sögulegu aðstæður sem nú eru í Póllandi: að tvíburabræður gegni tveimur valdamestu embættum í ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×