Fjölmiðlar í Póllandi skýrðu frá því í dag að 65 ára maður hefði nýverið vaknað eftir að hafa legið 19 ár í dái. Hann varð fyrir járnbrautarlest árið 1988, þegar Pólland var enn undir stjórn kommúnista. Ástandið hefur breyst mikið á þessum 19 árum og er landið nú orðið lýðræðislegt og hefur tekið upp markaðshagkerfi.
Jan Grzebski þakkar konu sinni að hann hafi vaknað upp á ný en hún var við hlið hans og annaðist hann allan tímann. Á meðan hann var í dái höfðu fjögur börn hans gift sig og hann eignast 11 barnabörn. Þá segist hann muna örlítið eftir því þegar fólk var að tala við hann á meðan hann var í dáinu.
„Áður en ég lenti í dáinu var varla til matur og biðraðir eftir bensíni voru gríðarlangar. Núna eru allir með farsíma og úrvalið er svo mikið í búðum að mig hreinlega svimar." sagði Grzebski við fréttamenn.